Samantekt um þingmál

Tollalög

609. mál á 150. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að samræma hámark þess magns matvæla sem ferðamenn geta haft með sér inn í landið án þess að greiða af þeim toll við ákvæði í tveimur Evrópusambandsreglugerðum, heimila að miðað verði við vikugengi í stað daggengis þegar tollafgreiðslugengi er ákvarðað, innleiða rafræn skil á aðflutningsskýrslum fyrir alla innflytjendur og enn fremur að setja reglur um að jafnræðis skuli gætt við innkaup á áfengi til endursölu í fríhafnarverslunum sem eru í meirihlutaeigu opinberra aðila.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að hámarksþyngd matvæla, sem ferðamönnum er heimilt að hafa með sér án tollgreiðslu, verði 10 kg í stað þriggja kg áður. Þá er lagt til að vikugengi verði lagt til grundvallar tollafgreiðslugengi í stað daggengis. Ætti þetta að auðvelda afgreiðslu hraðsendinga og draga úr töfum við tollafgreiðslu. Verði frumvarpið að lögum mun öllum innflytjendum verða skylt að skila rafrænum aðflutningsskýrslum. Þó verður aðilum sem ekki eru á virðisaukaskattsskrá heimilt að skila alls 12 skriflegum aðflutningsskýrslum árlega. Gert er ráð fyrir að ráðherra verði skylt að setja reglur um vöruval og innkaup á áfengi sem selt er í tollfrjálsri verslun í meirhlutaeigu opinbers aðila. Með þessu er brugðist við áminningarbréfi Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá 28. nóvember 2018 vegna skorts á gagnsæi og jafnræði milli heildsala við vöruval og markaðssetningu á áfengi sem selt er í Fríhöfninni ehf.

Breytingar á lögum og tengd mál

Tollalög, nr. 88/2005.

Kostnaður og tekjur

Ekki er talið að lagabreytingarnar sem í frumvarpinu felast hafi teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.

Afgreiðsla

Samþykkt með minni háttar breytingum.

Aðrar upplýsingar

Áminningarbréf Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá 28. nóvember 2018.


Síðast breytt 16.06.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.